• Heim
  • Söguaðferðin
    • Dæmi um söguramma
  • 5. bekkur
    • Landnámið
    • __ Fyrir nemendur
    • Náttúrufyrirbæri á Íslandi
    • __ Fyrir nemendur
  • 6. bekkur
    • Þjóðgarðurinn
    • __ Fyrir nemendur
    • Reikistjörnurnar
    • __ Fyrir nemendur
    • Snorri Sturluson
    • __ Fyrir nemendur
    • Norðurlöndin
    • __ Fyrir nemendur
  • 7. bekkur
    • Evrópa
    • __ Fyrir nemendur
    • Aldasafnið
    • __ Fyrir nemendur
Upplýsingatækni og söguaðferðin

Söguaðferðin 

Heim
Söguramma beitt við skipulag náms og kennslu
Söguaðferðin (e. storyline method eða storyline approach) snýst um að virkja nemendur og fá þá til skapandi þekkingarleitar. Hugmyndin er að þeir setji fram eigin tilgátur og afli þekkingar á þeim grunni. Þetta er kallað fram með spurningum sem beina athygli að þverfaglegum viðfangsefnum og laða oftast fram einhvers konar sögu um efnið sem nemendur miðla með ýmsu móti og oft á myndrænan hátt.

Kennarinn spyr opinna spurninga til að kalla á hugstormun og finna út hvernig valið viðfangsefni horfir við nemendum, greina hvað þeir vita, halda eða geta ímyndað sér um efnið áður en lagst er í upplýsingaleit og efnisöflun. Þannig er reynt að tryggja að nemendur byggi námið á eigin reynslu og tengi það henni. Söguramminn sem stuðst er við er kaflaskiptur og verkefni eiga sér upphaf, miðju og endi. Nemendur vita ekki hvað framundan er en tengja ný skref því sem er að baki. Mikilvægt er að gera byrjun hvers kafla svo spennandi að nemendur vilji ólmir halda áfram og að þeir fái á tilfinninguna að þeir ráði sjálfir einhverju um þróun sögunnar og alla framvindu.

Kennarinn stýrir verkefninu markvisst eftir söguramma og veit hvert hann ætlar sér en er um leið opinn fyrir tillögum nemenda að breytingum. Segja má að kennarinn leggi til þráð en nemendur gefi sögunni líf með því að leggja til atburði, persónur og útfærslur á sögusviði. Spurningar kennarans skipta höfuðmáli og er mikilvægt að hann haldi sig við aðalmarkmið sögurammans sem kenndur er og hvetji nemendur sína til að kanna heiminn og nota ímyndunaraflið til að móta hugmyndir sínar. Ekki er einungis unnið með þekkingu og færni heldur einnig tilfinningar og viðhorf. Það sem helst greinir söguaðferð frá venjulegri þemavinnu er að kennari leiðir vinnuna með spurningum og lætur hugmyndina um sögu tengja alla þætti í stað þess að allir þættir tengist einu meginviðfangsefni. Einnig er lögð mikil áhersla á myndræna tjáningu og skapandi miðlun.

Uppruni söguaðferðarinnar
Árið 1965 var í Skotlandi kallað eftir heildstæðara skólastarfi og samþættingu námsgreina á borð við samfélagsgreinar, raungreinar og listgreinar til að ýta undir áhuga barna á námi og láta nemendur vera miðdepil í öllu skipulagi. Fljótlega var teymi kennara við endurmenntunardeild kennaraháskólans Jordanhill í Glasgow falið að styðja kennara sem þekktu lítið til vinnubragða af þessu tagi. Þeir Steve Bell, Bill Michael og Fred Rendell hófu samvinnu við fjölda starfandi kennara og kennsluráðgjafa í barnaskólum í Vestur-Skotlandi um leiðir til að breyta kennsluaðferðum og viðfangsefnum í skólunum og af þeirri viðleitni spratt á löngum tíma söguaðferðin sem í fyrstu var stundum nefnd Topic Work. Margt skólafólk kom að þróun aðferðarinnar en leiðandi voru Steve Bell, Sallie Harkness og Fred Rendell. Talsmenn aðferðarinnar fóru stundum til annarra landa og erlendir gestir sóttu þýðingarmiklar ráðstefnur um skólamál við Jordanhill. Smám saman skaut aðferðin rótum víðar en á Skotlandi og gekk í fyrstu undir ýmsum nöfnum.

Alþjóðlegt samstarf um söguaðferðina
Árið 1987 hittust kennarar frá nokkrum löndum á Akureyri og voru þá lögð fyrstu drög að því að stofna um söguaðferðina alþjóðleg samtök. Samtökin voru stofnuð árið eftir í Enschede í Hollandi og nefndust European Association for Educational Design (EED). Hópur skólafólks og fræðimanna sem að þessu stóð nefndi sig í gamni og alvöru Gullna hringinn með vísun í hringinn sem erlendir ferðamenn fara svo gjarnan á Íslandi og draga fundir sem hafa verið haldnir reglubundið nafn sitt af því, Golden Circle Seminars. Frá árinu 2000 hafa verið haldnar ráðstefnur, stærri í sniðum, þriðja hvert ár. Samstarfið hefur teygt anga sína út um heim og á ráðstefnunni árið 2009, sem haldin var í Portland, Oregon, varð úr að breyta heiti alþjóðasamtakanna og kalla þau Storyline International. Næsta stóra ráðstefna var haldin í Reykjavík árið 2012 með stuðningi Háskóla Íslands undir forystu þeirra Guðmundar Kristmundssonar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Bjargar Eiríksdóttur kennara við Kársnesskóla. Vorið 2015 var svo leitað aftur til rótanna og haldin ráðstefna í Glasgow.

Söguaðferðin og íslensk kennaramenntun/íslenskt skólastarf
Alþjóðlegar ráðstefnur um menntamál við Jordanhill seint á áttunda og snemma á níunda áratug síðustu aldar vöktu áhuga erlendra gesta á söguaðferðinni. Rósa Björk Þorbjarnardóttir sem þá stýrði endurmenntun við Kennaraháskóla Íslands bauð skoskum talsmönnum aðferðarinnar að halda námskeið á Íslandi þegar árið 1981 og fleiri heimsóknir fylgdu í kjölfarið, oft skipulagðar af Guðmundi Kristmundssyni. Margir sýndu aðferðinni áhuga og hafa henni verið gerð ýmis skil í kennaramenntun. Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands hefur söguaðferðina meðal annars verið kennd á kjörsviði um kennslu ungra barna í grunnskóla. Þar fara nemendur í vettvangsnám og kenna söguaðferð og útbúa söguramma. Söguaðferðin hefur reynst vel og hefur verið almenn ánægja með hana á meðal stúdenta. Söguaðferðin hefur einnig verið reynd víða í starfi. Leikskóladeild Hrafnagilsskóla á Akureyri, Leikskólinn Rjúpnahæð í Kópavogi og Leikskólinn Hamrar í Grafarvogi hafa allir unnið með söguaðferðina með góðum árangri. Sá síðastnefndi hefur unnið með söguaðferðina í nánu samstarfi við kennara ungra barna í Kelduskóla Vík þar sem áður var grunnskólinn Víkurskóli.

Björg Eiríksdóttir og Rósa Eggertsdóttir skrifuðu hvor sína meistararitgerð um söguaðferðina, Björg við skoska kennaraháskólann Jordanhill sem þá hafði sameinast Strathclyde-háskóla og Rósa við háskólann í Cambridge á Englandi. Fleiri íslensk námsverkefni hafa beinst að þessari aðferð og þessi vefur er hluti af einu slíku, meistaraverkefni Valdísar Arnarsdóttur við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Söguaðferðin í Kársnesskóla
Björg Eiríksdóttir lauk kennaranámi 1973 og stúdentsprófi 1974 frá Kennaraskóla Íslands árið 1974. Hún hóf þá þegar kennslu við Kársnesskóla og hefur um langt árabil verið helsti frumkvöðull um söguaðferðina í hópi íslenskra kennara. Björg lauk meistaraprófi með áherslu á söguaðferð frá menntavísindasviði Strathclyde-háskóla í Skotlandi, Jordanhill, árið 1995 og hefur verið óþreytandi að kynna fyrir kennurum víða um land söguaðferðina og kosti hennar. Hún hefur haldið námskeið um söguaðferðina innan lands og utan, kennt um hana við Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og gefið út kynningarrit og söguramma á íslensku og ensku.

Í Kársnesskóla er söguaðferðin notuð frá 1. upp í 7. bekk og eru ekki dæmi um jafn mikla og samfellda notkun við aðra íslenska skóla. Kennarar við Kársnesskóla fóru í námsferð til Skotlands að kynna sér söguaðferðina og skólastarf í Skotlandi vorið 1992 þegar Björg var þar við nám og haustið 1993 var á kennarafundi ákveðið að allir bekkjarkennarar kenndu með söguaðferð eitt verkefni í samfélagsfræði. Björg leiddi og mat þetta þetta tilraunastarf sem þótti gefa góða raun og söguaðferð hefur verið beitt við skólann óslitið síðan. Venjan hefur verið að nemendur fáist við tvö til þrjú verkefni í hverjum árgangi, frá fyrsta upp í sjötta bekk og sjöundi bekkur bættist við eftir sameiningu við Þinghólsskóla árið 2001. Verkefnin ná til margra greina, texti og myndir úr verkefnavinnunni skreyta veggi skólans og áhersla er lögð á góð tengsl við foreldra í öllu þessu starfi.

Dæmi um söguramma

Heimildir 

Bell, S., Harkness, S. og White, G. (ritstjórar). (2007). Storyline: Past, present & future. Glasgow: Enterprising careers, University of Strathclyde.

Björg Eiríksdóttir. (1995). Qualities of the Storyline Method for Teaching in Primary Schools in Iceland (meistararitgerð). University of Strathclyde, Faculty Education, Jordanhill Campus. Sótt af http://frontpage.simnet.is/storyline/Mastersritgerd.pdf

Björg Eiríksdóttir. (1993). Söguaðferðin (lokaverkefni fyrir Diploma). University of Strathclyde, Faculty of Education, Jordanhill Campus. Sótt af http://frontpage.simnet.is/storyline/Soguadferdin-brot.pdf

Björg Eiríksdóttir. (e.d.) Söguaðferðin. Sótt af http://www.simnet.is/storyline/

Háskóli Íslands. (e.d.). Kennsluskrá. Sótt af https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?
tab=nam&chapter=namskeid&id=70417020160&merkja=s%C3%B6gua%C3%B0fer%C3%B0&kennsluar=2015


Leikskóladeild Hrafnagilsskóla. (e.d.). Innra starf. Sótt af http://leikskoli.krummi.is/leikskolinn/

Leikskólinn Hamrar. (e.d). Söguaðferðin. Sótt af http://www.hamrarnir.is/index.php/leikskolinn/soguadferdin

Leikskólinn Rjúpnahæð. (e.d.). Um námið. Sótt af http://rjupnahaed.kopavogur.is/um-skolann/namid/verkefni-fyrir-elstu-bornin/soguadferdin/

Storyline-Scotland. (2014). Storyline International. Sótt af http://www.storyline-scotland.com/storyline-international/

Schwänke, U. (2012). Key Questions revisited. Sótt af http://www.storyline-methode.de/mediapool/43/436167/data/Key_Questions_Textfassung_engl_und_dt.pdf