Um vefinnÁtta verkefni og átta rammar
Á þessum vef eru lýsingar og leiðbeiningar fyrir átta verkefni í upplýsingatækni og stafrænni miðlun. Þau eru ætluð 5. til 7. bekk en geta nýst öðrum aldurshópum. Þó að verkefnin tengist söguaðferðinni og átta völdum sögurömmum eiga þau að geta nýst lítið breytt og óháð söguaðferð hvar sem nemendur fást við miðlun með hjálp upplýsingatækni. Bygging vefsins Fyrst er fjallað stuttlega um söguaðferðina. Undir síðum sem heita 5. bekkur, 6. bekkur og 7. bekkur eru svo kynntir sögurammar. Þessu fylgja hugmyndir að verkefnum þar sem reynir á stafræna miðlun og leiðbeiningar um vinnu í forritum. Undir síðu 6. bekkjar er til dæmis sagt frá söguramma um þjóðgarð og því lýst hvernig nemendur geta búið til vefsíður um þjóðgarðinn sinn. Verkefni í upplýsingatækni og miðlun Verkefnin nefnast Umbrot í Publisher, Vefsíðugerð í Weebly, Skjákynning í Powerpoint, Ritvinnsla í Word, Hikmyndagerð í HUE animation, Stuttmyndagerð, Hljóðvinnsla í Audacity og Töflugerð í Excel. Svartir hnappar hér til hliðar vísa beint á leiðbeiningar um upplýsingatækni og miðlun. Upplýsingar um söguramma Rammarnir heita Landnámið, Náttúrufyrirbæri á Íslandi, Þjóðgarðurinn, Reikistjörnurnar, Snorri Sturluson, Norðurlöndin, Evrópa og Aldasafnið. Bláir hnappar hér til hliðar vísa beint á upplýsingar um söguramma. Tengsl við Kársnesskóla Verkefnin eru útbúin með Kársnesskóla í Kópavogi í huga en þar er söguaðferðin notuð í kennslu í öllum árgöngum frá 1. upp í 7. bekk. Þó að verkefnin taki mið af sögurömmum á miðstigi í Kársnesskóla ættu aðrir skólar að geta nýtt sér þau í hvers konar þemavinnu þar sem reynir á stafræna miðlun og samþættingu upplýsinga- og tæknimenntar við aðrar námsgreinar. Höfundar vefs og ramma Valdís Arnarsdóttir samdi og bjó til vefinn sem hluta af meistaraverkefni við Háskóla Íslands. Björg Eiríksdóttir kennari við Kársnesskóla samdi og staðfærði söguramma sem byggt er á í vefnum. Samkennarar Bjargar við Kársnesskóla hafa einnig aðstoðað við endurbætur á römmunum. Torfi Hjartarson var leiðbeinandi Valdísar við gerð þessa meistaraverkefnis. |